Heill mánuður í Tælandi

Þann 14. janúar 2018 kl. 03 að nóttu til héldum við Gunni af stað til Tælands. Veðrið á leiðinni út á flugvöll var klikkað, bílar fóru út af og stuttu eftir að við vorum komin inn í flugsstöð var Reykjanesbrautinni lokað. Við vorum því mjög heppin þar!

Fyrsta flugið okkar var til Köben. Þaðan áttum við svo 10 tíma flug til Bangkok. Ég get eiginlega ekki lýst tilfinningunni sem ég fann þegar við fórum í loftið. Mikil spenna, mikil tilhlökkun og frekar skrítið að vera að leggja af stað til Asíu, langt í burtu frá Íslandi og vita ekkert hvenær við kæmum heim.

Við lentum í Bangkok snemma morguns þann 15. janúar á tælenskum tíma. Í Bangkok var planið að hitta vini okkar þau Símon, Árna og Kristínu og eyða með þeim fyrstu dögunum í Tælandi. Símon kom til Bangkok nokkrum dögum á undan okkur Gunna og Kristín og Árni höfðu verið að ferðast um Asíu og Afríku í tæpa 5 mánuði. Það var mjög þægilegt að byrja ferðina með vönum ferðalöngum og við lærðum ýmislegt af þeim þessa fyrstu daga.

Við eyddum ekki löngum tíma í Bangkok eða aðeins tveimur dögum, enda Bangkok kannski ekki borg sem þú eyðir miklum tíma í. Það er eflaust hægt að gera ýmislegt þar en restin af Tælandi heillaði okkur meira. Fyrsta kvöldið fórum við beint á djammið á Khao San Road, eðlilega. Khao San Road er hinn tælenski „Laugavegur“ nema með töluvert meira djammi og klikkun. Hefði alls ekki viljað missa af þeirri upplifun!

Seinna kvöldið minnir mig að við höfum farið í bíó, eins ómerkilegt og það hljómar. Við gerðum það reyndar nokkrum sinnum í ferðinni, það var svo ferlega ódýrt að fara í lúxusbíó í Asíu 😅

Næst var förinni heitið til borgarinnar Chiang Mai í norðurhluta Tælands. Chiang Mai fannst mér voða næs, það er ekki stórborg eins og Bangkok heldur er hún aðeins meira sveitó. Flestir fara til Chiang Mai til þess að skoða fíla og það var einnig planið hjá okkur. Það eru (eða voru a.m.k á þessum tíma) mjög margir staðir sem bjóða upp á að skoða fíla nálægt Chiang Mai og því þarf að velja vel. Sumir staðir fara nefnilega ekki vel með dýrin. Þeim er misþyrmt, refsað og svo eru þau þvinguð til þess að bera fólk á bakinu. Við reyndum að velja stað þar sem vel var farið með dýrin og þeim leyft að lifa nokkuð frjáls. Ég gat ekki séð betur en að svo hafi verið en auðvitað er erfitt að vera alveg viss.

Þeir gengu a.m.k frjálsir um, við gáfum þeim banana og sykurreyr að borða og þeir fóru í drullubað. Mikið skemmtilegur dagur með þessum fallegu dýrum ❤

Svo fengum við þessa fínu kjóla til að vera í á meðan.

Í Chiang Mai fórum við líka í Grand Canyon þeirra Tælendinga, röltum á markaði, tókum vespurúnt um sveitirnar þar sem við sáum mann keyra yfir hund á vespu (😭), fengum okkur fyrsta tattoo ferðarinnar og djömmuðum, að sjálfsögðu.

Eftir 6 daga í Chiang Mai flugum við til Phuket og þaðan fórum við svo með bát til eyjarinnar PhiPhi. PhiPhi er pínulítil og falleg eyja í suðurhluta Tælands. Þar er djamm á hverju einasta kvöldi svo ég myndi segja að 2-3 dagar þar væri feikinóg. Við enduðum á að vera í 4 daga sem var eiginlega einum degi of mikið.

Þar var aðallega djammað (shocker) og fór heill dagur í boozecruise þar sem við sigldum á milli lítilla eyja í kring, sáum sæta apa, snorkluðum og ýmsilegt fleira. Sá dagur endaði svo á einkaeyju í fallegu sólsetri.

Eftir PhiPhi skildu leiðir hjá okkur ferðafélögunum og við Gunni fórum til eyjarinnar Koh Phangan. Þar hittum við fleiri vini okkar þau Einar, Birtu, Lilju og Adam og fórum með þeim á Full Moon hátíðina. Því við vorum nefnilega ekki búin að djamma nóg…..

Á Koh Phangan fengum við fyrstu „vondu“ gistinguna í ferðinni. Þegar Full Moon er á Koh Phangan eru allir gististaðir við ströndina á þeim hluta eyjarinnar bókaðir langt fram í tímann svo við þurftum að taka því sem bauðst. Í þessu tilviki var það lítill trjákofi inni í skógi með engri loftræstingu, götum á kofanum og risastórum kóngulóm. Við vorum reyndar bara óheppin með kofa því vinir okkar gistu á sama stað en í töluvert betri kofum. Ævintýrafólkið sem við erum náðum þarna einni svefnlausri nótt en ákváðum svo að splæsa í fokdýrt herbergi svolítið frá ströndinni.

Ásamt því að fara á Full Moon tókum við vespurúnt þvert yfir eyjuna, löbbuðum að útsýnispalli til að ná fallegu sólsetri og skoðuðum okkur um. Koh Phangan er nokkuð stór eyja og hefur töluvert meira upp á að bjóða en bara Full Moon. Það er eyja sem ég væri til í að fara aftur á og skoða miklu betur.

Næst fórum við á eyjuna Koh Tao sem er stutt frá Koh Phangan. Þar tókum við köfunarréttindi á 18 metra dýpi í köfunarskólanum BIG BLUE og ég lenti í óþægilegustu lífsreynslu ævi minnar. Nánast KAFNAÐI á 12 metra dýpi. Í einu köfunarprófinu á s.s. að taka súrefnisstútinn úr munninum, finna hann aftur og setja upp í munninn. Nema hvað að auðvitað fann ég ekki súrefnisstútinn, gat ekki andað en gat heldur ekki farið upp því við vorum á 12m dýpi og það er hættulegt að synda alla leið upp án stoppa. Fyrstu viðbrögð hjá mér voru því að reyna að rífa súrefnisstútinn af aumingja kennaranum. Sem betur fer vorum við með voða fínan kennara sem hjálpaði mér að ná andanum aftur, þrátt fyrir að ég hafi nánast reynt að drepa aumingja manninn.

En ég kláraði nú prófið og er með köfunarréttindi á 18 metra dýpi. Veit þó ekki hvort ég komi til með að nýta þau aftur eftir þessa lífsreynslu, hef ekki gert það hingað til 😅

Hér að neðan eru nokkur screenshot úr myndbandi sem við fengum eftir köfunarskólann.

Okkar dvöl á Koh Tao fór meira og minna í köfunarskólann og ég var mjög léleg að taka myndir sem er pínu leiðinlegt því Koh Tao endaði á að vera uppáhalds staðurinn minn í Tælandi. Þangað mun ég hiklaust fara aftur (og taka miklu fleiri myndir). Svo var ég líka með svo þrútið andlit allan tímann sem við vorum á eyjunni því ég var ekki nógu dugleg að drekka vatn fyrir og eftir köfun, sennilega ástæðan fyrir fáum myndum þar…..

Síðasti staðurinn sem við fórum á í Tælandi var eyjan Koh Samui. Þar leigðum við villu með Birtu, Einari, Lilju og Adam sem var sjúklega næs. Heil vika í algjörri slökun við sundlaugarbakkann. Fyrir utan einn dag sem fór í skoðunarferð í Tælenskt hof. Gunni var nú sjaldan spenntur fyrir því að skoða hof en gerði undantekningu í þetta skiptið. Í þessu hofi var nefnilega dáinn munkur í glerkassa og minn maður mikið spenntur fyrir því.

Á Koh Samui hittum við svo fleiri vini. Þau Lilju, Magga, Sindra, Helenu og Andra og vorum við 11 Íslendingar saman eitt kvöldið. Svooo skemmtilegt að geta hist svona mörg hinum megin á hnettinum.

Þann 13. febrúar áttum við Gunni svo flug frá Koh Samui til Kambódíu og mánaðar ævintýri í Tælandi var lokið. Þrátt fyrir að hafa farið á 6 staði og eytt svona löngum tíma þar þá finnst mér eins og ég eigi svo mikið eftir að sjá og skoða. Þrái að fara aftur einn daginn…. 💭

Ég vona að þú hafir haft gaman af fyrstu ferðasögunni úr reisunni ❤

Eins og þið kannski takið eftir þá eru allar myndir teknar á síma en ég átti ekki myndavél á þessum tíma. Þar af leiðandi eru þær frekar hráar en gefa vonandi skýra mynd af aðstæðum og okkar upplifun.

LOVE
Sesselía

  1. Bakvísun: Vika í Kambódíu

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s