Vika í Kambódíu

Við lentum í Kambódíu þann 14. febrúar, á sjálfan Valentínusardaginn, eftir mánuð í Tælandi (sjá færslu um Tæland HÉR). Fyrsti áfangastaður í Kambódíu var borgin Sihanoukville og megin ástæðan fyrir því að við fórum þangað var að okkur langaði að fara á eyjuna Koh Rong og það fór bátur þangað frá Sihanoukville. Meira vissum við ekki um borgina og í raun ekki um landið sjálft.

Það má segja að við höfum fengið vægt sjokk þegar við stigum út af flugvellinum. Það fyrsta sem við sáum var rusl. Allstaðar. Í skurðum, á götunni, á gangstéttum, við sjóinn. Bókstaflega út um allt. Við lærðum síðar að Kambódía er eitt fátækasta land Asíu vegna viðvarandi spillingar og þeim meiri tíma sem við eyddum þar því betur sáum við það.

Það var mikið um framkvæmdir í Sihanoukville þegar við vorum þar og stemningin var almennt svolítið sérstök. Það voru spilavíti á hverju horni og fleiri spilavíti í byggingu. Einhver sagði okkur að Sihanoukville væri vinsælt á meðal kínverskra fjárhættuspilara og væri alltaf að verða vinsælla en ég sel það ekki dýrara en ég keypti það. Við bókuðum gistingu nálægt strönd sem við héldum að væri svona vinsælasti staðurinn innan borgarinnar en það virtist vera að breytast. Flestir veitingastaðir höfðu fært sig annað í borginni og það var voða lítið að gerast í kringum okkur fyrir utan spilavítin auðvitað. Mögulega vorum við óheppin með tímasetningu en Sihanoukville var ekki að heilla og við enduðum á að eyða aðeins tveimur nóttum þar. Við gáfum borginni þó séns og gerðum það besta úr aðstæðum. Við kíktum á markaði og ströndina, eyddum heilum degi í að leita uppi SIM-kort og fórum á Valentínusardeit á fínum veitingastað þar sem við fengum bestu máltíð ferðarinnar, mjög óvænt ánægja!

Upprunalega var planið að fara á eyjuna Koh Rong frá Sihanoukville líkt og kom fram hér að ofan en svo var engin gisting laus þar næstu dagana. Smá skellur en slíkt getur auðvitað komið fyrir þegar þú ert að ferðast án þess að bóka mikið fyrirfram. Í staðinn fórum við til höfuðborgar Kambódíu, Phnom Penh.

Við tókum mini-bus frá Sihanoukville til Phnom Penh og leiðin tók um 5 tíma. Þegar við komum til Phnom Penh tók á móti okkur algjör krúttkall á tuk-tuk sem tók svo að sér að keyra okkur um alla borgina í nokkra daga. Myndirnar hér að neðan finnst mér skýra nokkuð vel hvernig staðan er í mörgum borgum í Asíu. Inn á milli stórhýsa eru illa farnar blokkir og fátækrahverfi en rétt handan við hornið eru snyrtilegar götur með pálmatrjám og blómum.

Það fyrsta sem við gerðum í Phnom Penh var að finna stað þar sem Gunni gæti skotið úr basúkku og hann var ekki lengi að græja það vinur okkar á tuk-tukinum. Áður en við vissum af vorum við komin út fyrir borgina í verulega vafasamt, lítið tréskýli með fjöldann allan af byssum. Þar voru menn ekkert að stressa sig á neinum öryggisatriðum og mér leist ekkert sérstaklega vel á þetta.

Allt fór þó vel og Gunni skaut úr basúkku, AK47 og LMG. Ég ætla ekki að þykjast vita hvers konar byssur það eru, eina sem ég veit er að basúkka er þessi stóra og þeir í byssuskýlinu vildu endilega að ég myndi halda á henni. Drullustressuð lét ég til leiðast og náði að kreista fram bros fyrir eina mynd. Þetta byssustúss var frekar dýrt, mig minnir að Gunni hafi borgað um 20.000 íslenskar krónur en þetta var langþráður draumur hjá Cod-nördinu svo hann borgaði þetta með glöðu geði.

Daginn eftir fórum við til Choeung Ek og skoðuðum S-21 fangelsið. Choeung Ek er minnisvarði, byggður í kringum fjöldagrafir fórnarlamba Khmer Rouge og S-21 er fangelsi þar sem fórnarlömbunum var haldið föngnum og þau pyntuð. Khmer Rouge (pólitísk hreyfing í Kambódíu) framdi fjöldamorð á árunum 1975-1979 víðs vegar um Kambódíu og kallast þessi svæði í dag The Killing Fields . Kambódía á sér ofboðslega sorglega sögu og það var bæði magnað og átakanlegt að læra um hluta hennar á þennan hátt. Á sama tíma var sérstakt að hafa aldrei lært um þessa atburði fyrr, við vissum ekki einu sinni af þessu. Fær mann til þess að hugsa hvað við lærum lítið um sögu annarra landa en þeirra sem tilheyra hinum vestræna heimi. Sem er frekar skrítið, er það ekki?

Næstu dagar í Kambódíu fóru í smá chill á meðan við biðum eftir að fá samþykkt Visa fyrir næsta áfangastað, Víetnam. Það getur tekið 2-3 daga að fá samþykkt Visa til Vietnam svo við færðum okkur á 4 stjörnu hótel (þau voru mjög ódýr í Kambódíu), kíktum á Skybar eitt kvöldið og slökuðum á í nokkra daga. Við ákváðum að binda enda á dvölina í Kambódíu þrátt fyrir að hafa ekki verið þar mjög lengi því vinir okkar voru komnir til Ho Chi Minh í Víetnam og við gátum tekið rútu þangað frá Phnom Penh fyrir lítinn pening.

Við upplifðum aðeins brot af Kambódíu og mig langar hiklaust að fara aftur. Okkar tíma þar var meira og minna varið innan borganna tveggja en ekki utan þeirra í náttúrunni svo við eigum mikið eftir. Þá eigum við einnig eftir að sjá hið fræga musteri Angkor Wat og auðvitað ferðast til Koh Rong. Vonandi fáum við tækifæri til þess síðar meir ❤

LOVE
Sesselía

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s