Mánuður í bestu Filippseyjum #1

Eftir 10 daga á Balí lá leiðin til Filippseyja. Filippseyjar var landið sem Gunni var spenntastur fyrir enda vinir hans búnir að peppa landið vel. Ég hafði hins vegar engar væntingar og vissi lítið við hverju ég átti að búast við. Filippseyjar stóðst þó allar væntingar Gunna og kom mér verulega á óvart. Það er allra uppáhalds landið okkar hingað til og leiðin liggur beinustu leið þangað um leið og aðstæður leyfa!

Filippseyjar eru eina landið sem við bókuðum bæði miða til og frá áður en við komum þangað. Vinir okkar sögðu okkur sem betur fer frá því að til þess að komast inn í landið væri skilyrði að hafa einnig miða heim. Til þess að ná að gera og sjá allt sem okkur langaði til ákváðum við því að bóka heilan mánuð í þessu dásamlega landi.

Við skipulögðum tímann okkar í Filippseyjum meira en við höfðum gert annars staðar. Líkt og nafnið gefur til kynna eru Filippseyjar margar eyjar og til þess að komast á milli eyja þarf að fara með bát eða flugvél. Það voru þó ekki endilega dagsferðir til allra eyja með flugi eða bát og í sumum tilvikum var aðeins siglt eða flogið 1-2x í viku. Það var því nauðsynlegt að skipuleggja sig vel.

Okkar plan var c.a svona: Moalboal – Oslob – Bohol – El nido – Puerto Princesa – Boracay

Þann 17. mars 2018 lentum við í höfuðborg Filippseyja, Manila og þaðan tókum við annað flug til eyjarinnar Cebu. Frá Cebu fórum við með leigubíl til Moalboal og var ferðalagið í heild frá Balí til Moalbola rúmur sólarhringur. Á myndinni hér að neðan má sjá eina bugaða Sesselíu eftir 25 tíma ferðalag. Einnig myndir sem teknar voru á ferð í Cebu.

Við áttum tvær nætur bókaðar í Moalboal en tilgangur þeirrar dvalar var einungis að fara að Kawasan falls. Við fengum örlítið sjokk þegar við mættum en hostelið sem við höfðum bókað var eiginlega hræðilegt. Fyrir það fyrsta þá leit herbergið okkar út eins og fangaklefi. Það eina sem var í herberginu var dýna á gólfinu, vifta og svo voru rimlar fyrir glugganum. Á því miður ekki mynd af herberginu en þið getið rétt ímyndað ykkur. Maðurinn sem átti hostelið var líka eitthvað furðulegur. Hann var aldrei á staðnum og vildi alls ekki að við færum af hostelinu. Til að toppa þetta fóru fram hanaslagir á kvöldin og langt fram á nótt fyrir utan hostelið svo við sváfum lítið sem ekkert. Það kemur eflaust ekki á óvart að við tékkuðum okkur út og fórum annað eftir aðeins eina nótt þar.

Moalboal var samt alls ekki slæmur staður að vera á heldur vorum við óheppin með hostel og það var engin önnur gisting laus. Það eru fáir túristar þar, umhverfið er frekar hrátt en fallegt og þú sérð vel hvernig líf heimafólks er sem mér finnst alltaf áhugaverðast að upplifa.

Við náðum þó að sjá Kawasan falls og fórum í svokallað „canyoneering“ – mæli með að tékka á Canyoneering Kawasan Falls á Youtube. Bjánarnir við vorum ekki með vatnshelda myndavél né vatnshelt hulstur fyrir síma svo við eigum engar myndir né myndbönd frá þessum sturlaða degi. Það er eiginlega ömurlegt en þið sjáið vel í myndböndum hvað þetta er og hversu sjúklega fallegir fossar Kawasan falls eru.

Eftir Kawasan Falls tókum við leigubíl til Oslob. Oslob er ennþá minni bær en Moalboal (held ég) en þar náðum við að bóka örlítið betri gistingu. Hún var að minnsta kosti algjör veisla samanborið við hitt hostelið. Við gistum tvær nætur þar og okkur leið mjög vel í Oslob. Næs vibe, fáir túristar og ótrúlega fallegt umhverfi. Í Oslob leigðum við meðal annars vespu, keyrðum að Tumalog falls og vörðum heilum degi þar að busla.

Við fórum einnig að snorkla með whale sharks en mér skilst að það sé ekki mjög góð starfsemi. Ég var ekki meðvituð um það á þeim tíma og ef þú hefur ekki kannað það fyrirfram þá er erfitt að sjá það sjálfur. Í okkar tilviki var farið á litlum árabátum út á sjó og hákörlunum var gefinn matur. Þeir syntu mjög nálægt, við hliðina á okkur og undir en það mátti enginn snerta þá. Þeir syntu því í friði og borðuðu mat svo það var erfitt að greina sjálfur að þetta væri skaðlegt fyrir dýrin. Ef þið google-ið „whale sharks Oslob“ þá eru þið þó ekki lengi að finna greinar um hvers vegna starfsemin getur haft skaðleg áhrif. Þið vitið bara af því ef leiðin liggur einhverntímann til Oslob ❤

Frá Oslob tókum við bát til Bohol en sú eyja þekkt fyrir Chocolate Hills og litla apa með risastór augu. Við sáum hvorugt 😅

Við gerðum grínlaust ekki neitt á Bohol annað en að slaka sem var bara geggjað. Vinir okkar höfðu verið á Bohol nokkrum dögum áður og sögðu okkur frá voða næs hóteli sem þau gistu á svo við ákváðum að bóka það líka. Það var staðsett aðeins fyrir utan bæinn en hafði allt til alls. Góðan veitingastað, nuddstofu, litla rækt og risastóra sundlaug. Algjör lúxus á lítinn sem engan pening og okkur leið mjög vel þar, svo vel að við vildum helst ekkert vera að fara neitt annað. Stundum verður maður þreyttur á skoðunarferðum og endalausu flakki og þá er hvíld í nokkra daga mjög svo kærkomin.

Eftir 3 nætur á Bohol áttum við flug til eyjarinnar Palawan en til þess að komast þangað þurftum við að taka bát til Cebu og svo flug frá Cebu til Palawan. Það var nú meiri ferðalagið.

Við vöknuðum eldsnemma um morguninn þar sem hótelið var búið að bóka leigubíl fyrir okkur út á bryggju. Sá leigubíll kom hins vegar aldrei. Það þurfti því að bóka annan bíl og bílstjórinn ók á 150 kílómetra hraða því við vorum að missa af bátnum. Ég hef sjaldan verið jafn hrædd. Við komumst þó heil á húfi niður á bryggju í tæka tíð. Rétt áður en við fórum inn í bátinn uppgötvaði Gunni svo að hann var ekki með veskið sitt. Það hafði orðið eftir í leigubílnum með öllum hans kortum og peningum. Bátsferðin var vægast sagt þung hjá mínum manni 😅

Restin af ferðinni gekk þó áfallalaust fyrir sig og við lentum á eyjunni Palawan þann 23. mars 2018. Ég segi ykkur betur frá þeirri ferð sem og restinni af ævintýrinu okkar í Filippseyjum í næstu færslu ❤

LOVE
Sesselía

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s