#metoo

Um jólin 2015 var ég beitt kynferðislegu ofbeldi. Strákur sem ég þekkti takmarkað fór yfir mín mörk, hlustaði ekki og suðaði þar til ég gaf eftir. Mig langaði þetta ekki og mig langaði ekki að vera þarna. Ég var meira að segja á blæðingum og reyndi ítrekað að koma því á framfæri. Eftir á reyndi ég að hringja í einhvern til þess að sækja mig en það svaraði enginn. Ég þorði ekki að hringja í foreldra mína því ég skammaðist mín svo mikið. Þau hefðu þó komið á augabragði en ég var ekki tilbúin til þess að horfast í augu við það sem hafði gerst og segja þeim frá. Strákurinn skutlaði mér því heim daginn eftir. Ég sagði ekkert.

Nokkrum dögum síðar brotna ég niður og segi foreldrum mínum frá og nánustu vinum. Ég fékk allan þann stuðning sem ég þurfti og það brugðust allir hárrétt við. Ég ákveð að hafa samband við strákinn og segja honum frá minni upplifun. Hann brást alls ekki illa við heldur þótti honum þetta mjög leitt og baðst afsökunar. Samskipti mín við hann voru því mjög góð og mér þótti mjög vænt um að hann hefði tekið ábyrgð og beðist afsökunar. Það eru alls ekki allir sem gera það.

Ég sagði örfáum frá þessu atviki, enda persónulegt mál sem ég vildi ekki að aðrir vissu af. Við vorum í sama skóla og ég, aðeins 17 ára gömul, vildi ekki að þetta myndi fréttast þar. Þegar ég kem aftur í skólann eftir jól vissu þó töluvert fleiri af þessu. Ekki af því hann hafði sagt frá heldur því bróðir hans hafði sagt mig vera að ljúga. Það var því stór hluti skólans sem taldi mig hafa logið um kynferðisofbeldi. Eflaust halda það einhverjir enn. Þessu til viðbótar leitaði ég mér hjálpar hjá aðila sem sagði þetta vera mér að kenna, ég hefði drukkið of mikið.

Hvort tveggja hafði verulega slæm áhrif á mig og hluti af mér fór að trúa því að þetta hefði verið mér að kenna. Ég lokaði á þetta og reyndi mitt besta að láta eins og ekkert hefði gerst. Það að einhver hafi tekið sig til og sagt fólki að ég hefði logið um atvik sem hafði veruleg áhrif á mína andlegu heilsu var í raun verra en atvikið sjálft. Það er sárt að vita til þess að fullt að fólki úr sama skóla telji þig hafa logið, jafnvel þó strákurinn hefði viðurkennt sín mistök. Ég hef fyrirgefið stráknum enda hann tekið ábyrgð á sínum gjörðum en ég hef aldrei getað fyrirgefið þeim sem sögðu mig vera að ljúga.

Í kjölfar umræðunnar síðustu daga hugsaði ég til þessa atviks í fyrsta skipti í mörg ár. Ég grét heillengi í fanginu á kærastanum mínum og margra ára bældar tilfinningar komu upp á yfirborðið. Ég veit að einhver ykkar sem lesið þessa færslu vitið um hvað og hvern ég er að tala um því þið fenguð aðeins að heyra sögu bróður hans. Söguna um að ég hefði logið.

Þessi færsla er tileinkuð 17 ára Sesselíu sem hafði ekki kjark til þess að leiðrétta þá sögu og segja sína eigin.

Takk fyrir að lesa mína sögu ❤

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s