Síðasta stopp asíureisunnar – Kuala Lumpur

Þann 13. apríl 2018 lentum við í Kuala Lumpur. Þar áttum við bókað fjögurra stjörnu íbúðahótel í heila 9 daga áður en förinni yrði haldið heim. Þegar dvölin í Filippseyjum tók enda áttum við enn svolítinn pening eftir svo við tókum meðvitaða ákvörðun um að gera vel við okkur í lok ferðarinnar og bókuðum því finni gistingu en venjulega. Sáum aldeilis ekki eftir þeirri ákvörðun.

Dagarnir í Kuala Lumpur hófust nær undantekningalaust á morgunmat í íbúðinni og svo sólbaði á þakinu. Rútína sem hentaði mér einstaklega vel. Við náðum þó aldrei að sóla okkur lengur en til hádegis vegna þruma, eldinga og grenjandi rigningar. Svoleiðis var það allan tímann sem við dvöldum í Kuala Lumpur, sól á morgnana og rigning eftir hádegi. Mjög furðulegt.

Eftir hádegi fórum við því oftar en ekki í verslunarmiðstöðvarnar í kring og kíktum í búðir. Ferðalangarnir sem voru búnir að hanga í hálfgerðum görmum í meira en þrjá mánuði voru verulega spenntir fyrir nýjum gallabuxum og þykkum peysum. Það voru því ófáar ferðirnar í búðir á meðan á dvölinni stóð. Verslunarmiðstöðvarnar í Kuala eru líka svo flottar og með gott úrval af bæði lúxusverslunum og svo þessum helstu tískuvöruverslunum. Ekki að við hefðum neitt erindi í Gucci og Louis Vuitton á þessum tíma en það var gaman að kíkja þar inn og láta sig dreyma.

Þá voru ófá kósýkvöldin uppi á herbergi og við nutum þess mikið vel að vera í lítilli íbúð með eldhús og öllu tilheyrandi.

Löngunin í að skoða fjölfarna túristastaði var lítil sem engin þarna í lok ferðar en við gátum þó ekki yfirgefið borgina án þess að skoða Petronas Twin Towers og Kuala Lumpur turninn. Petronas turnarnir eru ótrúlega flottir og það var frekar magnað að sjá þá í návígi en við fengum ekki eins góða upplifun í KL turninum. Hótelið okkar var staðsett við hliðina á turninum svo við röltum þangað einn daginn en þegar við komum var búið að loka aðaldæminu. Í turninum er s.s. hægt að fara út á glerútsýnispall og horfa yfir borgina í 276 metra hæð en sá pallur var lokaður vegna þruma og eldinga. Vorum ferlega óheppin þar. Við gátum þó séð yfir alla borgina úr turninum sem var ótrúlega flott.

Síðasta kvöldið okkar í KL fórum við í betri gallann og fögnuðum afmælinu hans Gunna. Hann á afmæli þann 26. apríl en við áttum flug heim þann daginn svo við fögnuðum því tveimur dögum áður. Skvís fór meira að segja í kjól.

Síðasta daginn okkar í Kuala fór Gunni svo og fékk sér flúr nr. 6 í ferðinni. Læt hér fylgja líka mynd af öllum hótelvörunum sem við sönkuðum að okkur yfir ferðalagið en við áttum ágætis safn af litlum kremum og sjampó-i í lok ferðar. Við enduðum á að nota það svo í ferðalög og útilegur um Ísland í alveg heilt ár eftir að við komum heim frá asíu, agalega sniðugt.

Þann 25. apríl lögðum við svo af stað til Singapore en við áttum flug þaðan til London daginn eftir. Frá London áttum við svo síðasta flugið okkar heim til Íslands. Við flugum til Singapore frá Kuala Lumpur og gistum eina nótt á hosteli þar. Því miður höfðum við engan tíma til þess að skoða okkur um þar því flugið til London var snemma um morguninn en við erum staðráðin í að fara aftur til Singapore einn daginn. Singapore er einstaklega snyrtileg og falleg borg sem mig langar mikið að heimsækja síðar.

Nokkrum dögum fyrir flugið til London var okkur boðið að uppfæra miðann okkar á fyrsta farrými fyrir um 20.000 kr. hvor og við ákváðum að slá til. Gunni átti afmæli og framundan var 14 tíma flug svo okkur fannst þetta ágætis leið til að gera afmælisdaginn örlítið skemmtilegri. Nokkrum dögum síðar fengum við uppfærsluna endurgreidda svo við fengum í raun fría uppfærslu á fyrsta farrými. Mega næs.

Við lentum á Íslandi um miðnætti á íslenskum tíma þann 26. apríl 2018 eftir þrjá og hálfan mánuð á ferðalagi um asíu. Mamma hans Gunna sótti okkur á flugvöllinn og svo keyrðum við heim í Þorlákshöfn þar sem enginn vissi að við værum á leiðinni. Það var extra skemmtilegt að koma óvænt heim og knúsa alla. Það líður þó ekki sá dagur sem ég hugsa ekki um að fara aftur og ef allt gengur eftir verður það vonandi fyrr en seinna.

Ég get eiginlega ekki endað þessa síðustu færslu án þess að deila með ykkur myndum af ástandinu á augabrúnunum mínum í lok ferðalagsins. Í þessari færslu hér birti ég lista af hlutum sem gott er að taka með í reisu og á þessum lista er augabrúnalitur. Það er góð og gild ástæða fyrir því. Ég var nefnilega eins og 5 ára barn í lok minnar reisu þar sem augabrúnirnar mínar höfðu upplitast í sólinni og hvergi var augabrúnalit að finna. Það má vel vera að það fari einhverjum vel að vera með ljósar augabrúnir en ég er svo sannarlega ekki ein af þeim…

Ég vona að ykkur hafi þótt þessi upprifjun á asíureisunni okkar skemmtileg. Mér fannst a.m.k ofboðslega skemmtilegt að rifja hana upp með ykkur og skrifa loksins um þetta ævintýri ❤

LOVE
Sesselía

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s